Fréttir

Félagsmönnum er bent á að nú hefur verið opnað fyrir umsóknir um vikuleigu orlofshúsa félagsins sumarið 2019.

Til þess að sækja um vikudvöl í orlofshúsi félagsins skrá félagsmenn sig inn á orlofsvef félagsins og velja flipann UMSÓKN SUMAR.

Hægt er að setja inn allt að 5 valmöguleika í umsókninni og er boðið upp á að leigja hús í Munaðarnesi, Vestmannaeyjum og íbúð á Akureyri.

Leigutími er mánudagur til mánudags.

Leiguverð er óbreytt 23.000 kr. fyrir vikuleigu, auk 24 punkta af punktainneign félagsmanns.

Umsóknarfrestur er til og með 3. apríl. 

Aðalfundur Félags flugmálastarfsmanna ríkisins verður haldinn fimmtudaginn 14. mars kl. 18:00.

Fundurinn fer fram á Réttinum, Hafnargötu 90, 230 Reykjanesbæ. Næg bílastæði eru að aftan.

 

Dagskrá fundar:

1. Skýrsla stjórnar

2. Ársreikningar FFR 2018 lagðir fram til úrskurðar

3. Tveir félagslegir skoðunarmenn reikninga kjörnir og einn til vara

4. Félagsgjöld fyrir næsta starfsár ákveðin

5. Önnur mál

Boðið verður upp á léttar veitingar og eru félagsmenn hvattir til að fjölmenna!

Undirbúningsfundur með félagsmönnum vegna komandi kjaraviðræðna FFR við SA/Isavia verður haldinn á Réttinum í Keflavík þann 27. febrúar næstkomandi kl. 18:00 og ert þú kæri félagsmaður hvattur til þess að mæta.

Stjórn félagsins hefur þegar fundað með trúnaðarmönnum félagsins og rætt áherslur ykkar fyrir kröfugerðina og nú viljum við gefa öllum félagsmönnum tækifæri til þess að hitta stjórn og samninganefnd félagsins áður en kröfugerðin sjálf lítur dagsins ljós.

Á fundinum verða ræddar áherslur FFR fyrir næstu kjarasamninga. Hafir þú einhverjar tillögur eða áherslur sem þú vilt koma á framfæri og ræða við samninganefndina er tilvalið að mæta á fundinn og láta ljós þitt skína.

Okkur er mikið í mun að ná til allra og fá ítarlegar upplýsingar frá öllum félagsmönnum. Hafir þú ekki tök á því að mæta á fundinn getur þú sent vinnufélaga með erindið eða falið þínum trúnaðarmanni að taka málið fyrir á fundinum. Við eigum að sjálfsögðu von á því að allir trúnaðarmenn okkar sitji fundinn.

Við höfum einnig nú þegar sent út rafræna könnun á hvern og einn félagsmann til þess að tryggja að rödd allra félagsmanna heyrist áður en samninganefnd sest við samningaborðið. Ert þú búinn að svara könnuninni?

Boðað er til fundar þann 27. febrúar kl. 18:00 á Réttinum, Hafnargötu 90 230 Reykjanesbæ, næg bílastæði eru að aftan og að venju verða flottar veitingar í boði!

Stjórn og samninganefnd FFR

Kæru félagsmenn,

Nú fer að líða að kjaraviðræðum og af því tilefni höfum við sent út skoðanakönnun til félagsmanna sem lýtur að launakjörum, aðstæðum á vinnumarkaði og líðan félagsmanna í starfi.

Einn heppinn þátttakandi verður dreginn út og fær 50.000 kr. gjafakort!

Markmiðið með könnuninni er að fá yfirsýn yfir áherslur félagsmanna í komandi kjaraviðræðum og er mikilvægt að svörun við könnuninni verði góð til þess niðurstöður verði marktækar.

Ef þið hafið ekki fengið póst á ykkar persónulegu netföng er mögulegt að hann hafi verið sendur á vinnunetfangið.

Endilega hafið samband á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. ef upp koma vandamál.

Þann 1. janúar 2019 tók ný launatafla gildi í samræmi við gildandi kjarasamning FFR við SA/Isavia og sjá félagsmenn breytingar á launaseðlum sem bárust í dag. 

Félaginu hafa borist nokkrar fyrirspurnir í tengslum við ný númer launaflokka félagsmanna og viljum við ítreka þær upplýsingar sem koma fram í fylgiskjali 1 við kjarasamninginn:

1. janúar 2019 verður launatafla lagfærð þannig að 2% bil verður milli launaflokka en 2,5% bil milli þrepa. Við vörpun yfir í nýja launatöflu skal við það miðað að launaflokki starfsmanns í fyrsta þrepi sé varpað yfir í fyrsta þrep nýrrar launatöflu þangað sem launatala er jöfn eða í næsta launaflokk fyrir ofan.  Síðan raðast starfsmaður í viðeigandi starfsaldursþrep. Við þetta munu númer launaflokka breytast en tryggt verður að enginn lækki í launum við vörpunina.

Vinsamlegast athugið til skýringa að nú hefur verið búin til ný launatafla þar sem sama prósenta er nú á milli allra flokka og allra þrepa svo að taflan er loks jöfn í öllum liðum ólíkt töflunni sem nú hefur verið felld úr gildi og gilti frá 1. maí 2018 til 1. janúar 2019. Allir félagsmenn okkar sem vinna hjá Isavia fá nú greidd mánaðarlaun miðað við nýja launatöflu. Þetta þýðir að öllum hefur verið fundinn staður í nýrri töflu til samræmis við upplýsingar í fylgiskjali 1. Allir hafa þá færst til í launaflokkaröðun (fengið ,,nýjan" launaflokk) en þess gætt að enginn lækki í launum. Hækkun launa við vörpunina var misjöfn miðað við það hvar menn voru áður staddir í ójafnri launatöflu. 

Við vonum að þessar útskýringar dugi þeim sem ekki muna eftir útskýringum samninganefndar við kynningu gildandi kjarasamnings vorið 2017 þar sem vörpunin var skýrð.  

Launatafla í gildi frá 1. janúar 2019 hefur verið birt sem sérstakt skjal undir flipanum um kjarasamninga en gömlu töfluna má finna í gildandi kjarasamningi. 

Starfsemi stjórnar FFR er blómleg að vanda. Nú er hausta tekur viljum við benda félagsmönnum á það að miðar í Hvalfjarðargöngin hafa verið teknir úr sölu á orlofsvefnum okkar þar sem ekki þarf lengur að greiða fyrir akstur í gegnum göngin frá og með 01.10.2018. Þeirra í stað ætlum við að bjóða félagsmönnum kostakjör á 10 miða búntum fyrir bíósýningar í Sambíóunum. Félagið mun niðurgreiða bíómiða til félagsmanna og vonum við að þessi nýjung komi félagsmönnum vel. Frá og með næstu helgi fást á orlofsvefnum okkar alls 10 bíómiðar á 6.000 kr. (raunvirði er 16.000 kr.) sem gilda á 2D og 3D sýningar (ekki á íslenskar kvikmyndir og ekki í VIP sal). Athugið að gildistími miðanna miðast við hvenær FFR kaupir miðana. 

Stjórn FFR hefur unnið að því að skoða eignir til kaups á Tenerife sem félagsmönnum stæði til boða að leigja allt árið um kring á mjög hagstæðu verði. Vinnan gengur ágætlega en er tímafrek. Vonum að niðurstaða fáist á næstu mánuðum. Einnig erum við að skoða eignir fyrir austan fjall um þessar mundir. Á þessum nótum er vert að minna fólk á að nýting þeirra orlofskosta sem við nú þegar bjóðum upp á mætti gjarnan vera mun betri. Endilega kíkið á orlofssíðu félagsins og kannið hvort þið getið ekki nýtt ykkur þá kosti í vetur. Huggulegheit í bústað, bæjarferð til Akureyrar eða sprang í Vestmannaeyjum? 

Á komandi mánuðum munum við ræða við félagsmenn og leggja með þeim línurnar að næstu kjarasamningum. Við hefjum vinnuna næsta mánudag með heimsókn og fundum með félagsmönnum okkar á Egilsstöðum. Boðað hefur verið til fundar með trúnaðarmönnum 14. nóvember og boðað verður síðar til vinnufundar með öllum félagsmönnum í janúar. Fyrirhugað er að halda þann fund í Reykjanesbæ.

Félagið hefur aldrei verið stærra og trúnaðarmenn okkar nú öflugri en nokkru sinni fyrr. Við viljum hvetja félagsmenn til þess að hafa samband við okkur og láta sig málin varða (This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.). Við erum alltaf til taks fyrir ykkur.

Baráttukveðjur,

stjórn