Trúnaðarmenn

1.gr.

Trúnaðarmaður skal vera á þeim vinnustöðum þar sem starfa fimm eða fleiri félagsmenn.

Einnig skal hver deild samkv. 9. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 kjósa trúnaðarmann.

Á mjög fjölmennum vinnustöðum, þar sem starfshóparnir eru dreifðir og sérgreindir, er stjórn félagsins heimilt að veita leyfi fyrir kosningu fleiri en eins trúnaðarmanns.

2. gr.

Trúnaðarmaður er málsvari félagsmanna á sínum vinnustað gagnvart atvinnurekanda annars vegar og stjórn Félags flugmálastarfsmanna ríkisins hins vegar.

Hann skal kappkosta að kynna sér vel kjarasamninga starfsmanna, réttindi þeirra og skyldur og hvaðeina sem lýtur að kaupi þeirra og kjörum.

3. gr.

Trúnaðarmaður skal gæta þess, að gerðir vinnusamningar og lög um kaup og kjör séu haldnir af atvinnurekanda og fulltrúum hans og að ekki sé gengið á félagslegan eða borgaralegan rétt verkamanna.

Komi til ágreinings milli félagsmanna og yfirmanna viðkomandi stofnunar ber trúnaðarmanni að gæta réttar félagsmanna og leita eftir lausn. Náist samkomulag skal trúnaðarmaður gera stjórn FFR grein fyrir því. Takist samkomulag hins vegar ekki skal trúnaðarmaður vísa málinu til stjórnar FFR, sem tekur málið að sér.